14/04/2024

Átta lið komin áfram

Nú er orðið ljóst hvaða lið taka þátt í átta liða úrslitum í Spurningakeppni Strandamanna sem Sauðfjársetur á Ströndum heldur. Fjöldi fólks mætti á seinna keppniskvöldið í fyrstu umferð sem fór fram á sunnudaginn síðasta og skemmti sér hið besta yfir mjög spennandi keppnum. Stigaskor var fremur lágt enda hafa keppnirnar í ár verið örlítið erfiðari en undanfarin ár, en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að úrslit í öllum keppnunum nema einni réðust í síðustu spurningu. Eftir að keppnunum lauk var dregið í átta liða úrslit og þar komu fram keppnir sem verða án efa barátta upp á líf og dauða. Hér gefur að líta úrslit síðasta kvölds og viðureignirnar í átta liða úrslitunum:

Umf. Neisti – Vegagerðin = 11-8
Sparisjóður Strandamanna – Félag eldri borgara = 17-10
Ferðaþjónustan Kirkjuból – Leikfélag Hólmavíkur = 11-14
KSH – Grunnskólinn Drangsnesi = 11-15

Hólmadrangur komst áfram úr fyrstu umferð sem stigahæsta taplið, með 18 stig.


Þessar viðureignir fara fram í átta liða úrslitum:

Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík – Ungmennafélagið Neisti
Leikfélag Hólmavíkur – Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík
Grunnskólinn Drangsnesi – Skrifstofa Strandabyggðar
Hólmadrangur – Sparisjóður Strandamanna