24/04/2024

Byggðamál efst á baugi í kosningunum í vor

Valdimar SigurjónssonAðsend grein: Valdimar Sigurjónsson
Í þessari grein og komandi greinum ætla ég að fjalla um ýmis málefni tengd byggðamálum, enda er um marga mismunandi en þó samverkandi þætti að ræða þegar kemur að umfjöllun um þau mikilvægu mál. Byggðamál verða stærsta kosningamálið í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2007.

Neikvæð byggðaþróun í stórum hluta kjördæmisins er fólki mikið áhyggjuefni og ekki að ástæðulausu. Þessi þróun hefur staðið í áratugi og ástæður þess eru margþættar. Hver einasti einstaklingur er afar mikilvægur og mikið áfall fyrir byggðarlögin þegar þeim fækkar. Fækkun eykur álag á þá sem eftir eru og grundvöllur margskonar þjónustu fjarar út, samkeppnishæfni byggðarlaga minnkar o.s.frv. Ekki má heldur gleyma andlega þættinum hjá íbúum, en að horfa á eftir æskuvinum, félögum og fjölskyldumeðlimum flytja burt á fjarlægar slóðir snertir hjartaræturnar tilfinnanlega. Þetta er þróun sem erfitt er að átta sig á hvernig á að stöðva og snúa við. Eitt er víst að þessi mál verða ekki leyst á einni nóttu heldur er um langtímaverkefni að ræða þar sem samstaða og samvinna margra aðila þarf að koma til.

Í leik, námi og starfi hef ég fengið þann heiður að umgangast fólk víðsvegar af landinu. Sammerkt með miklum meirihluta þessa fólks eru sterk tilfinningabönd sem borin eru til æskuslóðanna og þær ævinlega kallaðar „heima“ þó að langur tími hafi liðið frá brotthvarfi. Þegar umræðurnar snúast um heimabyggðirnar og spurningunni kastað fram hvort til greina kæmi að flytja aftur heim er svarið jákvætt. Ástæður þess að flytja heim eru oftast einum rómi. Í því sambandi má helst nefna öryggis- og tengslanetið. Að geta umgengist stórfjölskyldu sína og alið upp börn sín í faðmi hennar er fólki afar mikilvægt. Samkenndin sem ríkir í minni byggðarlögum þar sem allir þekkja alla er eftirsóknarverð. Einnig má nefna aðra þætti eins og frasann um stressið en í samanburði kemur landsbyggðin mun betur út í mati á streitustigi. Saman vinna þessir mismunandi þættir og margir aðrir að því að einstaklingar telja lífsgæði sín og hamingju betur uppfyllta á æskuslóðunum. 

Forsendur þess að flytja til baka eru hins vegar mismunandi og geta verið mjög einstaklingsbundnar. Í komandi greinum mun ég fara yfir nokkur atriði í þeim efnum. Hægt verður m.a. að sjá greinarnar á heimasíðu minni www.valdimar.is ásamt öðru efni sem tengist stjórnmálaumræðunni núna í aðdraganda kosninga.

Í lokin langar mig að birta hér eina vísu sem Hjalti Sigurjónsson bóndi í Raftholti setti saman og á ansi vel við þessa umræðu.

Þó á æviskeiði verði skil
skal þó á það minna.
Að hugurinn ætíð leitar til
æskuslóða sinna.

Valdimar Sigurjónsson – www.valdimar.is
Höfundur skipar þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi