29/04/2024

Ársreikningur Strandabyggðar 2006 ræddur

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær var lagður fram ársreikningur sveitarfélagsins til fyrri umræðu og farið yfir lykiltölur. Rekstrartekjur A og B hluta samanlagt nema rúmum 284,1 milljón, en rekstrargjöld fyrir fjármunagjöld nema 281,1 milljón. Fjármagnsgjöld námu rúmum 32,8 milljónum og því er rekstrarniðurstaðan neikvæð um tæpar 29,9 milljónir. Veltufé frá rekstri nam tæpum 28,3 milljónum og handbært fé frá rekstri nam tæpum 23,4 milljónum. Handbært fé lækkaði um rúmar 13,4 milljónir og var í árslok 2006 jákvætt um rúmar 24,5 milljónir. Engin ný lán voru tekin á árinu. 

Rekstrartekjur A hluta sveitarsjóðs námu tæpum 276,6 millj. en rekstrargjöld án fjármagnsgjalda tæpum 256,5 milljónum. Var því rekstrarniðurstaða í A hluta jákvæð fyrir fjármagnsgjöldin, um rúmar 20 milljónir. Fjármagnsgjöld voru hins vegar rúmar 23,5 millj. og rekstrarniðurstaða því neikvæð um tæpar 3,4 milljónir.

Samþykkt var á fundinum að vísa ársreikningnum til annarrar umræðu.