10/09/2024

Arnkatla 2008 hugar að málefnum hvalaskoðunar

Undanfarin misseri hefur Strandagaldur unnið verkefni við að skrásetja ferðir
hvala í Steingrímsfirði en það verkefni hefur nú færst á hendur
klasaverkefnisins Arnkötlu 2008.  Undanfarið hefur Arnkatla verið í stefnumótun
og sérstaklega beint sjónum sínum að náttúrutengdri ferðaþjónustu og möguleikum
svæðisins í henni. Núna í vikunni voru fulltrúar hvalaskoðunarfyrirtækja á
Húsavík á Ströndum ásamt fulltrúa frá IFAW sem eru stór alþjóðleg samtök um
hagsmuni dýrategunda og beina sjónum sínum sérstaklega að því að finna hagnýtar
lausnir til verndunar dýra, og funduðu með tveimur aðstandendum
Arnkötluverkefnisns. Í framhaldi af þeim fundi var ákveðið að hefja
talningarverkefnið á ný, en það hefur legið niðri undanfarna mánuði vegna
tæknilegra örðugleika. Stefnt er að því að í framtíðinni verði hægt að nýta allt
svæðið sem athyglisverðan stað í ferðaþjónustu og að Steingrímsfjörður verði
einn af helstu hvalaskoðunarstöðum á landinu.

Til þess að svo megi vera þarf að skrásetja hvalakomur í Steingrímsfjörð og
reyna að sjá nokkuð nákvæmlega hvar og hvenær árs er helst von til þess að sjá
hvali, en það er nokkuð algeng sjón að sjá hvalavöður og einstaka hvali á
firðinum. Arnkatla 2008 vill því beina því til íbúa og sjómanna við
Steingrímsfjörð að láta vita af hvalasýn og tilkynna það á sérstakri síðu hér á
strandir.saudfjarsetur.is, slóðina inn á hana er hægt að nálgast með því að smella hér. Þar
eru fylltar inn ákveðnar upplýsingar sem enda síðan á borði verkefnisstjóra Arnkötlu
2008.

 Tilgangurinn með rannsókninni er að tímasetja hvalakomur á fjörðinn og
átta sig á því á hvaða árstíma er best von fyrir ferðamenn að berja þessi
risaspendýr augum. Um hundrað þúsund manns fóru í hvalaskoðun á Íslandi á
síðasta ári, en mikil aukning hefur verið á hverju ári mörg undanfarin ár í
þessari tegund ferðaþjónustu. Stefnt er að því að Arnkatla taki þátt í
sameiginlegri markaðssetningu hvalaskoðunarfyrirtækja á Íslandi strax í sumar og
beini sjónum áhugafólks um náttúruskoðun inn á Arnkötlusvæðið sem tekur yfir
Strandir og Reykhólasveit.

Þegar tilkynnt er um hvalasýn er gott að fram komi
hvaða dag það átti sér stað, á hvaða tíma dags og hvar viðkomandi var staðsettur
við fjörðinn þegar hann sá hvalina á firðinum. Allar ljósmyndir af hvölum í
Steingrímsfirði eru vel þegnar og þær mega vel vera teknar úr nokkurri fjarlægð.
Ljósmyndir má gjarnan senda á netfangið arnkatla2008@strandir.saudfjarsetur.is.