24/04/2024

Árlegur hreinsunardagur á Drangsnesi

Einn af árvissum viðburðum vorsins er ruslahreinsun á Drangsnesi. Þessi hefð á sér nokkuð langa sögu eða frá árinu 1974, en Kvenfélagið Snót stóð fyrir ruslatínslu í þorpinu eitt vorkvöld í maí í mörg ár. Hin síðari ár hefur sveitarstjórn séð um að kalla fólk saman. Mjög góð þáttaka var og ekki dró veðrið úr. Eftir að allt rusl var upptínt og fangað í poka, biðu nýbakaðar vöfflur með rjóma og heitt kakó og kaffi eftir ruslatínslufólkinu í samkomuhúsinu og mæltist það vel fyrir. Hafði fólk orð á því hversu lítið rusl væri til að tína saman og minntust gjöfulli tíma þegar margir bílfarmar af rusli skiluðu sér á einni kvöldstund.

Drangsnes, allt nýhreinsað – ljósm. Jenný Jensdóttir