23/12/2024

Ályktun um samgöngumál

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur sent íbúum Vestfjarða kveðju í tengslum við ársþing Fjórðungssambands Vestfjarða um liðna helgi og óskað eftir birtingu hennar á vefnum strandir.saudfjarsetur.is. Í kveðjunni sem er undirrituð af Steingrími J. Sigfússyni er byggðastefna stjórnvalda harðlega gagnrýnd og ekki síst stjórnsýslan tengd samgöngumálum, en eins og kunnugt er hafa nýlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna við þenslu komið illa við Vestfirðinga.

Ályktunin hljóðar svo: 

Fundur flokksráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 1.-2. september sendir Fjórðungssambandi Vestfjarða sem nú þingar og íbúum Vestfjarða, Norð-Austurlands og annara landsvæða sem hlut eiga að máli kveðju sína:
 
Óumdeilt er að stóriðjustefna stjórnvalda á stóran þátt í þeirri þenslu, verðbólgu og jafnvægisleysi í efnahagsmálum sem almenningur og atvinnulíf hefur liðið fyrir undanfarin misseri og gerir enn. Fálmkenndar og allt of seint fram komnar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að takast á við vandann bitna nú á því og þeim sem síst skyldi, þ.e. fyrirhuguðum langþráðum úrbótum í samgöngumálum á Vestfjörðum og Norð-Austurlandi og þar með íbúum viðkomandi landssvæða. Flokksráð VG harmar að þau svæði sem að öllu eðlilegu ættu að njóta stuðnings fremur en hitt og sannanlega hafa miklu fremur verið þolendur en njótendur stóriðjuumsvifanna skuli nú látin bera afleiðingarnar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð heitir því að snúa við blaðinu og leggjast á árar með heimamönnum m.a. með stórátaki í að bæta samgöngur á landi þar sem þær eru enn ófullnægjandi verði flokkurinn í aðstöðu til þess eftir komandi alþingiskosningar. Einnig hyggst flokkurinn koma aftur á reglubundnum strandsiglingum eins og þingmenn hans hafa lagt til á Alþingi undanfarin ár.

Með baráttukveðjum til Vestfirðinga allra
F.h. Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG