23/04/2024

Afkoma Hólmadrangs

Rækjuverksmiðja Hólmadrangs. - Ljósm: sigatlasAðalfundur Hólmadrangs ehf var haldinn í gær, þriðjudaginn 5. apríl, í húsnæði félagsins á Hólmavík. Nýtt félag keypti eignir og tók við rekstri rækjuvinnslunnar þann 1. apríl 2004, eftir að eldra félag sameinaðist Skagstrendingi hf á Skagaströnd og miðast uppgjör hins nýja félags fyrir árið 2004 því við síðustu 9 mánuði ársins. Velta félagsins nam rúmum 760 milljónum króna og hagnaður rúmum 18 milljónum. 


Að Hólmadrangi ehf standa Kaupfélag Steingrímsfjarðar og FISK Seafood hf á Sauðárkróki með jafnan eignarhlut og sátu fulltrúar úr stjórnum þessara félaga aðalfundinn. Hlutfall eiginfjár í efnahag í lok árs nam rúmum 48% og veltufjárhlutfall var 1,24. Fundarmenn lýstu yfir ánægju með jákvæðan rekstur félagsins í erfiðu rekstrarumhverfi og það góða samstarf sem náðst hefur milli eignaraðila um að skapa traustan grundvöll um áframhaldandi rekstur rækjuvinnslunnar á staðnum. Þá voru starfsfólki færðar sérstakar þakkir fyrir þeirra störf og þátttöku í þessum árangri.