25/09/2023

Aðalfundur Geislans

Aðalfundur Geislans verður haldinn á fimmtudagskvöld kl. 19:30 í Grunnskólanum á Hólmavík. Á dagskrá fundarinns eru venjuleg aðalfundarstörf, skýrsla stjórnar, ársreikningar og kosning stjórnar, auk annarra mála. Núverandi stjórn Geislans skipa Hrafnhildur Þorsteinsdóttir sem er formaður, Kristján Sigurðsson, Alfreð Gestur Símonarson, Lára Jónsdóttir og Victor Örn Victorsson. Aðalverkefni Geislans er að standa fyrir íþróttaæfingum fyrir börn og unglinga. Hefur það starf verið mjög blómlegt síðustu fimm árin og er áætlað að a.m.k. tveir þriðju af grunnskólakrökkum á félagssvæðinu stundi einhverjar æfingar. Knattspyrnuæfingar standa enn yfir, en í vetur hefur verið boðið upp á knattspyrnu, körfubolta, frjálsar og badminton, alls 10-15 æfingar á viku.

Sumaræfingar hefjast 13. júní nk. Það er hinn öflugi þjálfari Þorvaldur Hermannsson sem tekur við æfingum í sumar og ætlar hann að bjóða upp á sund, knattspyrnu og frjálsar. Verður þetta í fyrsta sinn sem boðið er upp á sundæfingar á Hólmavík en nú er aðstaða öll hin besta með tilkomu sundlaugarinnar. Stefnt er að þátttöku í KB bankamótinu í knattspyrnu í Borgarnesi dagana 23.-26. júní í sumar.