07/10/2024

Strandagangan á laugardag í Selárdal

Stærsti og fjölsóttasti viðburður vetrarins í skíðaíþróttinni á Ströndum verður haldinn á laugardaginn. Þá fer Strandagangan fer fram í Selárdal við Steingrímsfjörð. Töluvert er komið af skráningum í gönguna og eins og oft áður eru Ísfirðingar þar fjölmennastir. Veðurspáin fyrir laugardaginn er góð en spáð er sólskini fyrri part dags og -6°C frosti. Þá að vera hægur vindur af suðaustri, sem þýðir logn í Selárdal. Mikið hefur bæst við af snjó í dalnum og verður líklega eingöngu nýr snjór í brautinni.

Á vef Strandagöngunnar er fólki bent á að snjómokstursreglur Vegagerðarinnar hafa breyst þannig að Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldar eru mokaðar á föstudögum og sunnudögum en ekki á laugardögum. Líklegt er þó að leiðirnar haldist opnar ef veðurspá gengur eftir og einnig má benda á fjölmarga gistimöguleika hér á Ströndum.

Skráning fer fram á staðnum frá 11:30 og verður ræst verður í 1 km gönguna kl. 12:20 og í aðrar vegalengdir kl. 13:00. Kílómetra gangan er eingöngu ætluð keppendum 12 ára og yngri. Til að auðvelda vinnu við skráningu geta menn sent skráningar og fyrirspurnir á netfangið sigrak@simnet.is, eða í síma 893-3592 (Ragnar) og 892-1048 (Rósmundur). Þátttökugjald er kr. 2.500 fyrir 16 ára og eldri og kr. 1.000 fyrir 15 ára og yngri. 

Þrír fyrstu keppendur í hverjum flokki og vegalengd fá glæsilega bikara og aðrir fá viðurkenningarpening fyrir þátttökuna. Kaupfélag Steingrímsfjarðar Hólmavík styrkir gönguna með kaupum á verðlaunagripum. Sá sem er fyrstur í mark í 20 km. göngunni hlýtur að launum veglegan farandbikar sem gefinn var af Heilbrigðisstofnun Hólmvíkur til minningar um Sigfús Ólafsson heimilislækni. Einnig verður keppt í sveitakeppni í öllum vegalengdum, en sveitakeppnin fer þannig fram að 3 einstaklingar í sömu vegalengd mynda lið og gildir samanlagður tími þeirra. Þrjár efstu sveitirnar í hverri vegalengd fá verðlaunapeninga fyrir sæti. 

Eftir göngu er öllum keppendum og starfsfólki boðið í veglegt kaffihlaðborð og verðlaunaafhendingu í Félagsheimilinu á Hólmavík. Aðgangseyrir að kaffihlaðborði fyrir aðra en keppendur og starfsmenn er 1.000 kr sem rennur til styrktar starfsemi Skíðafélags Strandamanna.