10/09/2024

Ný skipting landsins í sjö sóknarsvæði

Á næstu mánuðum verða mótaðar sóknaráætlanir í öllum landshlutum samkvæmt nýrri
skiptingu landsins í sjö svæði sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn. Heimamenn
á hverju svæði um sig og fjöldi hagsmunaaðila, stofnana og ráðuneyta munu koma að
verkinu undir forystu landshlutasamtaka og stýrihóps Sóknaráætlunar sem starfar
á vegum forsætisráðuneytisins m.a. með þátttöku fimm ráðherra
ríkisstjórnarinnar. Sveitarfélögin á Vestfjarðakjálkanum eru talin eitt af þessum svæðum, að Bæjarhreppi undanskildum sem er talinn frekar eiga samleið með Norðurlandi vestra.

Svæðaskiptingin er samkvæmt frétt á vef stjórnarráðsins hugsuð til að ná megi nauðsynlegri
viðspyrnu við endurreisn efnahagslífsins. Í henni felst m.a. sýn á nýtt og
stærra höfuðborgarsvæði sem þurfi að starfa sem ein heild. Nær það frá
Reykjanesi í Borgarnes og yfir á Árborgarsvæðið. Borgarnes, Akranes og Árborg
eru þó jafnframt máttarstólpar á Vesturlandi og Suðurlandi og munu koma að gerð
áætlana fyrir þau svæði. Tillaga að svæðaskiptingunni hefur verið unnin í
samráði við ráðuneyti, landshlutasamtök og forystu Sambands
sveitarfélaga.

Fjölmargir þættir munu fléttast saman við mótun sóknaráætlana
í heildstæða áætlun, m.a. atvinnumál, umhverfismál, menntamál, samgöngumál,
endurskipulagning opinberrar þjónustu og efling sveitarstjórnarstigsins. Ætlunin
er að hver áætlun byggi á greiningu á styrkleikum og veikleikum hvers svæðis,
skýrri forgangsröðun og framtíðarsýn sem góð samstaða er um.

Nánar má fræðast um Sóknaráætlanir undir þessum tengli.