23/04/2024

Nemendum fækkar um fimm

Hagstofan birti nýverið tölur um fjölda grunnskólanema í skólum landsins haustið 2004. Samkvæmt tölunum er grunnskólanemar í þeim fjórum skólum sem reknir er á Ströndum alls 119 og þar af eru 54 drengir og 65 stúlkur. Grunnskólabörnum fækkar lítillega frá haustinu 2003, en þá mættu samtals 124 nemendur í skólana. Fjöldi nemenda á Ströndum hefur verið nokkuð stöðugur síðastliðin fjögur ár og litlar sveiflur verið þrátt fyrir fólksfækkun á svæðinu.

Nemendur í grunnskólunum á Ströndum; Finnbogastöðum, Drangsnesi, Hólmavík, Broddanesi (til 2003) og Borðeyri á árunum 2001-2004:

Haust 2001 – 113 nemendur
Haust 2002 – 117 nemendur
Haust 2003 – 124 nemendur
Haust 2004 – 119 nemendur

Flestir eru nemendurnir í Grunnskólanum á Hólmavík, eða 83. Nemendum þar hefur fækkað um tvo frá síðasta skólaári, en hins vegar hefur þeim fjölgað um fjóra frá 2001, en þá voru 79 við nám. Af 83 nemendum í skólanum eru 42 drengir og 41 stúlka.

Í Grunnskólanum á Drangsnesi eru 16 nemendur. Fjöldi nemenda þar hefur staðið í stað síðustu fjögur ár, utan ársins 2003 en þá voru 14 nemendur við skólann. Af nemendunum sextán eru sex drengir og tíu stúlkur.

Í Grunnskólanum á Borðeyri eru 15 nemendur. Hlutfallsleg aukning nemenda við skólann síðan 2001 er gríðarleg, en þá voru einungis sex nemendur í skólanum. 2002 voru átta börn við nám og 2003 hafði þeim fjölgað í tólf. Af fimmtán nemendum eru einungis fjórir drengir en stúlkurnar eru ellefu talsins.

Fámennasti skólinn á Ströndum er Finnbogastaðaskóli í Trékyllisvík, en þar eru 5 nemendur. Það er sami fjöldi og hefur verið undanfarin ár frá 2001, utan ársins 2003, en þá voru nemendurnir sex talsins. Stúlkur í Finnbogastaðaskóla eru þrjár og drengirnir eru tveir.