04/10/2024

Páskalömbin ljúfu

Á sama tíma og fréttir berast úr Árneshreppi og handan úr Bitru um að sauðburður sé hafinn mánuði fyrr en venja er til, standa bændur í Strandabyggð og Kaldrananeshreppi ennþá í smalamennskum. Það kom líka páskalamb á Bassastöðum, samt ekki með þeim hefðbundna hætti að ær bæri á föstunni. Blessuð skepnan kom af fjöllum í orðsins bestu merkingu – og verður að öllum líkindum etin í vor.

Á skírdag fréttist yfir í Steingrímsfjörð að sést hefði fé á Húsadal sem gengur fram úr Laugabólsdal í Ísafirði og kom nú heldur en ekki fiðringur í tær og fingur smala. Ráðgerð var stórsókn þar sem fjallafálur þessar skyldu handsamaðar og þær færðar til þess bærum yfirvöldum til meðferðar, það er að segja hinum síunga  hreppstjóra Jóni á Laugabóli.

En margt fer öðruvísi en ætlað er, því á sama tíma var undirbúin aðför úr Reykhólasókn til að handsama áður nefnt útigöngufé. Þar sem við ofurefli var að etja var liðinu úr Strandabyggð og Kaldrananeshreppi stefnt í Hvannadal vestari sem er með stórfönnum í hlíðum og ólgandi jarðhita þar sem heitur pottur með sjálfrennandi heitri útisturtu er inni í dalnum. Og innst í dalnum er hið örlagaþrungna Austurmannagil, þar sem hópur austmanna eða austurmanna mun hafa borið beinin.

Svona dalur er auðvitað margfalt merkilegri en einhver Húsadalur og viti menn, þar fundust tvær kindur sem náðust eftir nokkurt harðræði. Hljóp Tröllatungubóndinn m.a. á kaf í Hvannadalsána svo flæddi niður um hálsmálið á kalli, en ef eitthvað var þá kom hann bara mun sprækari úr baðinu og var þó fjörugur fyrir. Þarna náðist þrevetur ær frá Hafnardal, en annað lambið undan henni kom í vetur fram við Grænanes í Steingrímsfirði. Hitt vantar enn. Þess má geta að þegar sama ær var veturgömul  var hún handsömuð á svipuðum slóðum og nú, um miðjan vetur. Líklega er hún sama sinnis og Halla forðum og jarmar: ”Fagurt er á fjöllum.” Hitt var lamb frá Bassastöðum sem reyndist vera 44 kg á fæti heim komið, en ána vantar.

Af Húsadalsfénu sem bændur í Reykhólahreppi sóttu að er það að segja að þar náðust 15 kindur sem hlýtur að liggja nærri fjöldameti í aprílsmölun. Kindurnar voru frá Djúpadal og Gufudalsbæjunum að ógleymdum 3 lömbum og líklega tveimur ám frá Jóni hreppstjóra á Laugabóli. Þetta fé var flest í góðum holdum og hefði að öllum líkindum klárað veturinn með stæl á fjöllum uppi. 

bottom

Eins og myndirnar bera með sér var gras ekki nauðbitið á Hvannadal í haust.

landbunadur/580-aprilsmolun2.jpg

Kindurnar voru alveg innst inni í dalnum, alveg fram við snjó, og þó þar sé minni gróður var farið að koma brum á víði sem hefur líklega þótt sætt á tungu eftir misjafnan vetur – ljósm. Guðbr. Sverrisson