28/03/2024

Smári gerir það gott

Smári Gunnarsson / FrímannStrandamaðurinn Smári Gunnarsson frá Hólmavík stendur nú í stórræðum í Reykjavík, en þar tekur hann þátt uppfærslu Leikfélagsins Thalíu á söngleiknum Komin til að sjá og sigra, en Thalía er leikfélag Menntaskólans við Sund þar sem Smári stundar nám. Söngleikurinn sem er sýndur í Loftkastalanum er spunaverkefni og er byggt á Stuðmannamyndinni frægu, Með allt á hreinu. Smári fer með hlutverk Frímanns sem er eitt af aðalhlutverkunum.

Verkið var frumsýnt í Loftkastalanum þriðjudaginn 15. febrúar og Smári sagði í samtali við strandir.saudfjarsetur.is að móttökurnar við verkinu hafi verið vægast sagt frábærar. "Salurinn var frábær og fólkið var gífurlega ánægt eftir sjóvið. Þetta leikrit er spunaverkefni en við studdum okkur aðeins við grunnkonseptið úr gömlu myndinni og breyttum miklu," sagði Smári. "Gömlu góðu lögin eru í nýjum búningum en við, leikararnir í sýningunni, sáum um tónlistina og við spilum nokkur lögin "live" á sviðinu í Loftkastalanum. Þetta eru Stuðmanna- og Grýlulögin úr myndinni og svo er eitt frumsamið lag og texti eftir sjálfan mig sem ég samdi til að dýpka samband aðalpersónanna í verkinu."

Verkið hefur fengið afar góða dóma og m.a. fékk það 4 og hálfa stjörnu af 5 mögulegum á vefnum www.leiklist.is. Hér fyrir neðan getur fólk nálgast og hlaðið niður tveim hljóðskrám sem innihalda lög úr leikverkinu. Smellið á nöfn laganna og þá opnast hljóðskráin, eða hægrismellið og ýtið síðan á "Save target as".

Hér er lagið og textinn Vinátta sem Smári Gunnarsson samdi.
Hér er lagið Fljúgðu sem einnig er í verkinu.

Smári í hlutverki Frímanns.