19/09/2024

Töluvert af gestum á tjaldsvæðinu

Töluvert hefur verið um gesti á tjaldsvæðinu á Hólmavík það sem af er sumri, þó ekki hafi viðrað sérstaklega vel síðustu vikur. "Nú er sól og sumar framundan samkvæmt veðurspánni," segir Arnar S. Jónsson umsjónarmaður og býst við mikilli traffík næstu vikur. "Tjaldsvæðinu hefur verið mikið hrósað af gestum þetta árið, enda er það vel búið og síðustu vikur hafa starfsmenn hreppsins staðið sig afar vel við að ganga frá ýmsum lausum endum. Til dæmis er búið að setja upp tröppur yfir skjólgarða, snúrur og merkingar."


Arnar segir að tjaldsvæðið sé eitt af þeim bestu á landinu, skjólsælt og vel búið, rétt við hliðina á sundlauginni sem sé ótvíræður kostur.