19/09/2024

Lokasýning á Jörundi á laugardag

Laugardaginn 28. apríl  verður lokasýning á ævintýraverkinu Þið munið hann Jörund í félagsheimilinu á Hólmavík. Í fréttatilkynningu segir að reiknað sé með gargandi stemmingu þetta kvöld og fullu húsi gesta. Áhugasömum er þess vegna bent á að panta miða á sýninguna í síma 865-3838. Í tilefni dagsins vill Leikfélagið bjóða einn frían drykk með hverjum keyptum miða. Geta gestir valið úr nokkrum tegundum gosdrykkja til að svala þorstanum og þeir sem eru orðnir 20 ára hafa einnig val um léttan eða venjulegan bjór. Kvennakórinn Norðurljós selur kaffi, svala og gómsætt bakkelsi í hléinu. Gestum sem koma lengra að, er bent á að nægt gistirými er á Hólmavík og nærsveitum og afþreying ýmis konar á boðstólum.

Leikfélag Hólmavíkur var stofnað í maí 1981 og hefur starfað nær óslitið síðan þá. Í þessari uppsetningu eru þáttakendur um 25 manns á öllum aldri. Skúli Gautason leikari og tónlistarmaður leikstýrði verkinu. Honum finnst krafturinn og jákvæðnin á Hólmavík alveg hreint ótrúleg og menningarlífið með frábært, það sé kannski svolítið kraftaverk að geta sett upp leikrit með 25 leikurum í 500 manna byggðalagi. Það sanni að það sé líf á landsbyggðinni. 

Þetta hafa gestir sagt um sýninguna:

Bjarni Ómar Haraldsson tónlistarmaður:
"Síðasta laugardagskvöld lá leið mín á frumsýningu Leikfélags Hólmavíkur á verki Jónasar Árnasonar, Þið munið hann Jörund. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það að öðru leiti en að hér er á ferðinni glæsileg og stórskemmtileg sýning sem enginn má missa af. Umgjörð sýningarinnar og andinn í húsinu eru ljómandi góður og á sviðinu eru unnir margir litlir og stórir leiksigrar. Uppfærslan sem stjórnað er af Skúla Gautasyni skilar sögunni vel og tónlistin sem drífur verkið áfram er flutt á metnaðarfullan hátt og af fagmennsku sem hrífur áheyrandann með á vit ævintýrsins á landinu kalda."

Arnar Jónsson:
"Við fórum öll í gær á leikritið, Þið munið hann Jörund, í félagsheimilinu. Stórskemmtileg uppsetning hjá uppáhalds leikfélaginu mínu og ekki skemmdi að verkið er eitt af mínum uppáhalds leikritum. Hvet alla sem vettlingi geta valdið að mæta á næstu sýningar og sjá leiksigra hjá fjölda manns. Það eru gríðarleg forréttindi (sem ég er ekki viss um að allir Strandamenn geri sér grein fyrir) að eiga jafn frábært leikfélag og Leikfélag Hólmavíkur."