14/10/2024

Draumalandið

Aðsend grein: Anna Lára Steindal
Þegar kosningar nálgast fer maður óhjákvæmilega að spá í líf sitt og tilveru í víðu samhengi og velta því fyrir sér hvað ef …. ? Það er ákaflega margt sem ég vildi breyta. Í fljótu bragði dettur mér í hug að í draumalandinu mínu:

…búa öll börn við gott atlæti og eiga öll jafna möguleika á því dafna og þroskast sem sterkir og sjálfstæðir einstaklingar.
… geta öll börn tekið þátt í tómstunda- og félagslífi.
… eiga öll börn jafna möguleika á því að mennta sig til þess sem hugur þeirra stendur til og njóta hæfileika sinna.
… þarf sú ömurlega og óvelkomna hugsun aldrei framar að læðast að mér að lífið verði auðveldara og fjárhagsstaðan betri þegar synir mínir vaxa úr grasi heldur get ég notið þess til fulls að eiga litla, heilbrigða og dásamlega drengi sem þurfa á umhyggju minni, ástúð og tíma að halda.
… njóta öll börn geðheilbrigðisþjónustu þegar þau þurfa á henni að halda.
… þarf gamla fólkið ekki að búa í þvinguðu sambýli eða eyða stórum hluta þess sem eftir er ævinnar á biðlista eftir hjúkrunarrými.
… ríkir jafnrétti í reynd og konur og karlar eiga jafna möguleika í atvinnulífi og stjórnmálum – og fá sömu laun fyrir sömu vinnu.
… ríkir jafnrétti í reynd og feður fá að bera eins sjálfsagða ábyrgð á börnum sínum og mæður.
… geta allir lifað af laununum sínum og enginn  þarf að velta á undan sér skuldapakka sem stækkar um hver mánaðarmót.
… geta allir átt sér andlegt líf, ræktað áhugamál sín og notið samvista við vini og fjölskyldu.
… hækkar höfðustóll lánanna minna ekki jafnt og þétt heldur lækkar eftir því sem ég greiði af þeim.
… þarf enginn að búa við niðurlægingu fátæktar.
… eru Hvalfjarðargöngin gjaldfrjáls.
… nýtur fólk mannréttinda óháð kyni, kynþætti eða kynferði.
… er tekið vel á móti innflytjendum og áhersla lögð á gagnkvæma aðlögun.
… fá allir að njóta mannvirðingar og sjálfræðis.

Sá flokkur sem ég treysti best til þess að gera þessa draumsýn að veruleika er Samfylkingin. Stjórnarflokkarnir hafa haft tólf ár til þess að skapa manneskjulegt  samfélag fyrir alla  – með lélegum árangri. Er ekki kominn tími til að breyta?

Ég hvet kjósendur til þess að kynna sér jafnaðarhugsjónina og stefnumál Samfylkingarinnar og spá í hvort ekki sé kominn tími til þess að kjósa okkur manneskjulegri tilveru. Ég kýs það fyrir mig og mína. En þú?

Anna Lára Steindal