07/10/2024

Nefndum fækkar í Strandabyggð

Á vef Strandabyggðar kemur fram að í þessari viku hafa þrjár nefndir sveitarfélagsins fundað í síðasta sinn og verða nú lagðar niður í núverandi mynd. Þetta eru Menningarmálanefnd, Íþrótta- og tómstundanefnd og Félagsmála- og jafnréttisnefnd. Í hagræðingarskyni kemur í staðinn ein Tómstunda- og menningarnefnd sem skipað verður í á næsta sveitarstjórnarfundi Strandabyggðar og ný sameiginleg Velferðarnefnd Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Strandabyggðar og Reykhólahrepps.


Sveitarfélagið Strandabyggð þakkar á vef sínum nefndarmönnum í nefndunum þremur kærlega fyrir unnin störf. Í Menningarmálanefnd voru Salbjörg Engilbertsdóttir formaður, Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Lýður Jónsson, Ester Sigfúsdóttir og Steinunn J. Þorsteinsdóttir. Í Íþrótta- og tómstundanefnd voru Hildur Guðjónsdóttir formaður, Kristján Sigurðsson ritari, Vala Friðriksdóttir, Aðalbjörg Guðbrandsdóttir og Kristjana Eysteinsdóttir.

Í Félagsmála- og jafnréttisnefnd voru Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir formaður, Bryndís Sveinsdóttir, Jóhanna Guðbrandsdóttir, Sverrir Guðmundsson og Rósmundur Númason. Sameiginleg Velferðarnefnd Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Strandabyggðar og Reykhólahrepps tekur við hlutverki Félagsmálanefndarinnar og jafnréttismálin verða færð undir Atvinnumála- og hafnarnefnd Strandabyggð.

Fulltrúar fyrir hönd Strandabyggðar í nýrri velferðarnefnd eru Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og Rósmundur Númason. Aðrir fulltrúar í nýju nefndinni eru Hrefna Þorvaldsdóttir fyrir Árneshrepp, Jenný Jensdóttir fyrir Kaldrananeshrepp og Andrea Björnsdóttir fyrir Reykhólahrepp. Nefndin mun vinna náið með nýjum félagsmálastjóra sem starfar á sama svæði.