13/12/2024

Kosið um sameiningu Bæjarhrepps og Húnaþings vestra 3. desember

Samstarfsnefnd um sameiningu Bæjarhrepps og Húnaþings vestra var skipuð af sveitarstjórnum beggja sveitarfélaganna í júní síðastliðinn. Á vefnum huni.is kemur fram að frá þeim tíma hefur nefndin haldið nokkra málefnafundi og unnið að gagnasöfnun vegna mögulegrar sameiningar.
Fram kemur í tilkynningu frá samstarfsnefndinni að hún mun innan tíðar skila tillögu sinni um sameiningu sveitarfélaganna til sveitarstjórnanna og í kjölfarið verður kynningarefni dreift á hvert heimili í sveitarfélögunum.

Í næsta mánuði eru áformaðir kynningarfundir með íbúum í Bæjarhreppi og Húnaþingi vestra og verða þeir auglýstir ítarlega þegar nær dregur. Þá er áformað að íbúakosning um sameiningartillöguna fari fram í sveitarfélögunum þann 3. desember næstkomandi.

Áhugasömum skal bent á að fundargerðir samstarfsnefndar er að finna á heimasíðu Húnaþings vestra, www.hunathing.is.