29/03/2024

Yfirlit yfir veðrið í júní 2007

Krossnesfjall og Kálfatindar - ljósm. Jón G.G.Vefnum strandir.saudfjarsetur.is hefur borist veðuryfirlit um júnímánuð frá Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í veðurstöðinni í Litlu-Ávík í Árneshreppi á Ströndum. Júní var mjög góðviðrasamur í heild, hægviðri, þurrviðri, en oft þoka eða þokuloft á kvöldin og nóttina í Árneshreppi. Úrkoman hefur aldrei mælst eins lítil í júní síðan mælingar hófust í Litlu-Ávík (árið 1995) eða 9 mm.


1.-3.: Breytilegar vindáttir, hægviðri, kul eða gola, smá skúrir, hiti frá 3 stigum upp í 16 stig.
4.-5.: Sunnan og suðaustan stinningskaldi, smá skúrir, hiti 9 til 14 stig.
6.-21.: Hafáttir norðan, norðaustan, norðvestan eða breytilegar vindáttir, hægviðri, logn, andvari, kul eða gola. Úrkomulítið, en þokuloft eða þoka á stundum, hlýtt í veðri, hiti frá 5 til 15 stig.
22.: Suðvestan stinningskaldi, þurrt í veðri, hiti 7 til 15 stig.
23.: Norðan stinningsgola og heiðskýrt, hiti 6 til 10 stig.
24.: Suðvestan kaldi, þurrt, hiti 6 til 18 stig.
25.-30.: Norðan og norðvestan kaldi þann 27., annars gola eða kul, þokuloft eða þoka á stundum, smá súld þann 29. svalara í veðri, hiti 4 til 12 stig.

Tilbúin áburður borinn á tún í Árneshreppi 6. til 10. júní. Þann 10. er gróður komin vel á stað á ræktuðum túnum og úthagi hefur tekið vel við sér. Í lok mánaðar lítur sæmilega út með sprettu hjá bændum þó mjög þurrt hafi verið. Úrkoman mældist einungis 9 mm. Mestur hiti var 18,5 stig þann 24. júní. Minnstur hiti var þann 12. þá 2,5 stig og þann 28. júní var 3 stig. Sjóveður var gott allan mánuðinn.

Tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.