14/10/2024

Nýju ljósaskiltin ekki enn komin í gagnið

Eins og sagt var frá hér á vefnum í september setti Vegagerðin þá upp ný upplýsingaskilti við vegamótin við Hrófá og Gautsdal og ættu þau að sýna hvort vegurinn um Arnkötludal og Þröskulda sé fær, hitastig og vindhæð. Þau hafa enn ekki verið tengd, einhverra ástæðna vegna, og eru því engum til gagns. Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík fór síðasta laugardagskvöld í tvö útköll á þessar slóðir, en vegurinn var þá ófær. Fyrst kom hjálparbeiðni frá vegfaranda í vandræðum vegna ófærðar um kl. 19:00 og fóru tveir menn frá Dagrenningu til hjálpar. Þegar til kom reyndust tveir aðrir bílar einnig fastir á svæðinu. Öllum hjálpað úr ófærðinni niður í Gautsdal og björgunarsveitarmenn komu heim laust fyrir klukkan 21:00.

Korteri seinna kom aftur hjálparbeiðni í gegnum Neyðarlínuna. Á leiðinni heim úr því útkalli mættu björgunarsveitarmenn vegfarendum á leið upp Arnkötludal, þeim var snúið við og bent á leiðina suður Strandir sem var opin. Seinna verkefninu lauk laust 22:40.

Leiðin um Arnkötludal og Þröskulda er ekki mokuð á laugardögum og var á þessum tíma merkt ófær á vef Vegagerðarinnar. Skiltin góðu sitt hvoru megin við heiðina komu að engu gagni, þar sem ekki hefur verið kveikt á þeim enn. Á meðan svo er má Björgunarsveitin Dagrenning búast við að hafa nóg að iðja þegar ófærð er. Hættuástand getur líka auðveldlega skapast, vegna þess að GSM-samband á nýja veginum er alls ekki nógu gott. Hætta er á að fólk yfirgefi bíla sína í allskonar veðri til að reyna að finna símasamband, en slíkt er mjög varasamt.

Þar sem Arnkötludalsvegur liggur um Þröskulda nær hann hæst í 369 metra hæð yfir sjávarmál og það kemur fyrir að stórhríð eða snjór hamli för um nýja veginn. Vegur 68 um sunnanverðar Strandir er þá oft fær.

Sjá einnig eldri frétt á strandir.saudfjarsetur.is 16. sept. 2011: Veðraskilti við Hrófá.