22/11/2024

Enn heimtist fé af fjöllum

Sú veturgamla kominn á sleðannÍ dag fóru Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum og Haraldur Guðmundsson á Stakkanesi á snjósleðum að kíkja eftir kindum, en þrátt fyrir lítinn snjó í byggð er þokkalegt færi á fjöllum. Datt þeim í hug að athuga hvort ekki gæti enn leynst fé dölunum ofan Rauðamýrar í Djúpi og þá einna helst í Hvannadal, enda vantar enn kindur sem líklegt er að hafi sína sumarhaga á þessu svæði. Þrátt fyrir grýtta ásýnd er þarna mjög gott sauðland, en þarna eins og víða annars staðar geta kindur lokast  inni þegar harðna fer á haustin.

Því töldu fjárleitarmenn mögulegt að þar væri fé að finna sem raunin varð. Þarna í botni Hvannadals var veturgömul ær frá Reyni og Ólöfu í Hafnardal með lamb, vel spræk en hefur þó haft frekar harða vist í umhleypingasamri tíð og talsverðum snjó í desember og fyrri hluta janúar.

Þeim mæðgum var vel fagnað af eigendum sínum við sæluhúsið á Steingrímsfjarðarheiði og munu væntanlega lifa í vellystingum praktuglega það sem eftir lifir vetrar.

Séð niður eftir Hvannadal, Reykjanesskóli er fyrir miðri mynd en sést illa eða ekki.

Austurmannagil kemur fremst í Hvannadal og myndar tungu sem er ansi skeinuhætt fyrir fé á haustin.

Botn Hvannadals, kindurnar voru þar sem hringurinn er á miðri myndinni.

Ennþá frjálsar en farið að styttast í því.

Sú veturgamla komin á sleðann, ögn áhyggjufull að sjá.

Hvannadalur kvaddur, Haraldur var ekki í miklum vandræðum að ná kindunum, en ég gat bundið sauðaband og tekið myndir – ljósm. Guðbrandur Sverrisson.