27/04/2024

Yfirlit yfir veðrið í Árneshreppi í júlí

SpeninnJón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík í Árneshreppi hefur tekið saman yfirlit yfir veðrið í júlí 2007 frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík. Mánuðurinn var frekar kaldur fram í miðjan mánuð, síðan hlýnaði. Úrkoma var talsvert undir meðaltali í mánuðinum eða 32,6 mm. Sláttur hófst almennt í Árneshreppi um 10. júlí og var lokið að mestu fyrir mánaðarlok. Mestur hiti mældist 17,6 stig þann 20. júlí, en minnstur 3,1 stig að morgni 16. júlí. Sjóveður var gott allan mánuðinn nema 31. júlí, þá var dálítill sjór.

1. – Breytileg vindátt, gola, þurrt, hiti 6 til 13 stig.
2.-15. – Hafáttir yfirleitt gola eða stinningsgola, rigning eða súld með köflum, frekar svalt, hiti frá 3 stigum upp í 10 stig.
16.-20. – Breytilegar vindáttir eða suðlægar, kul, gola, stinningsgola, smá rigning 19. og 20., hlýnaði verulega í veðri, hiti 7 til 18 stig.
21.-28. – Norðan eða hægar hafáttir, kul upp í stinningsgolu, úrkomulítið, aðeins súld eða smá rigning, heldur kólnaði aftur, hiti 7 til 16 stig.
29.-30. – Suðlægar vindáttir, stinningsgola, smá skúrir, 7 til 15 stig.
31. – Norðan stinningskaldi, aðeins súld, hiti 9 til 11 stig.

Tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.