25/04/2024

Vinavika í Grunnskólanum

Í síðustu viku var svokölluð Vinavika í Grunnskólanum á Hólmavík, eftir eindregnar óskir nemenda, en hún var fyrst haldin vorið 2001. Vikunni er m.a. ætlað að auka samkennd nemenda skólans þvert á bekkjakerfið og vinna gegn flokkadráttum og stríðni. Hver nemandi fær leynivin í einhverjum öðrum bekk í skólanum og sendir honum uppbyggileg skilaboð, kort og bréf alla vikuna. Sendandinn fær síðan sambærilegar jákvæðar sendingar alla vikuna frá einhverjum öðrum. Á föstudaginn var svo mynduð vinakeðja á skólavellinum og þá var uppljóstrað um hver átti hvaða leynivin. Líka er skipst á litlum gjöfum í lok vikunnar.