28/03/2024

Vetrarveður á Ströndum

Veðurhorfur og færðÞað er óhætt að segja að veturinn sé lentur á Ströndum. Veðurhorfur næsta sólarhring gera ráð fyrir norðaustan 10-15 m/s með snjókomu eða éljum, en hægari breytileg átt verður síðan inn til landsins fram á kvöld. Frost ætti að verða á bilinu 5 til 15 stig. Veðurhorfur á landinu næstu daga eru heldur kuldalegar, en á aðfangadag og jóladag er spá norðanhvassviðri, 10-20 m/s og víða eiga að vera snjókoma og él. Frostið þessa daga verður skv. spánni 4-10 stig.

Samkvæmt upplýsingavef Vegagerðarinnar eru allar leiðir á Ströndum færar fyrir utan veginn norður í Árneshrepp frá Bjarnarfirði, en hann er ófær. Þæfingur er á Bjarnarfjarðarhálsi. Steingrímsfjarðarheiði var ófær í nótt en hefur nú verið opnuð. 

Það er stórhríð víða um Strandir og vegfarendur eru því beðnir um að fara varlega og hafa augun hjá sér, hvar sem þeir eru á ferðinni. Þá sem langar að fara á rúntinn í hríðinni er ráðlagt frá því að gera það, því skaflar og ófærð leynast víða og myndast fljótt. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is, sem hér skrifar nennti t.d. ekki í vinnuna sína vegna hríðarinnar og þeirrar staðreyndar að hann festi sig tvisvar sinnum á afar klaufalegan hátt á stuttri innanbæjarleið á Hólmavík í morgun.