23/12/2024

Vetrarríki á Ströndum

 Mikið vetrarveður er á Ströndum og snjó hefur kyngt niður í nótt. Þetta þýðir að færð hefur spillst, en samkvæmt vef Vegagerðarinnar eru allir vegir á Ströndum ófærir nú kl. 9:30 og stórhríð víða. Undantekningin er Hrútafjörður, en þar eru merktir hálkublettir á korti vegagerðarinnar. Beðið er með mokstur á öllum leiðum. Ófært er á Selströnd til Drangsness og kolófært í Árneshrepp. Veðurstofan gerir ráð fyrir norðaustan 15-20 m/s á Ströndum, en 8-15 um hádegi. Snjókoma í fyrstu, síðar éljagangur í dag og á morgun. Frost verður á bilinu 3 til 11 stig. Ferðalangar eru hvattir til að fara að öllu með gát og kynna sér aðstæður, veður og færð áður en lagt er í hann.