14/12/2024

VesturVerk og GAMMA í samstarf um byggingu Hvalárvirkjunar

Forsvarsmenn orkufyrirtækisins VesturVerk ehf. hafa gert samstarfsamning við Vatnsfall, fagfjárfestasjóð á vegum fjármálafyrirtækisins GAMMA, um fjármögnun á áframhaldandi undirbúningsvinnu vegna allt að 40MW vatnsaflsvirkjunar í Ófeigsfirði á Vestfjörðum. Virkjunin yrði langöflugasta virkjun á Vestfjörðum. Áætlað hefur verið að hún kosti allt að 15 milljarða króna og að rúmlega 300 ársverk þurfi til að byggja hana. Virkjunin er ein af fimm vatnsaflsvirkjunum í nýtingarflokki samkvæmt drögum að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu. Búið er að ná samstöðu um framkvæmdina meðal landeigenda og eigenda vatnsréttinda.

Gunnar Gaukur Magnússon framkvæmdastjóri VesturVerks er ánægður með samninginn sem mun gera félaginu kleift að ráðast í frekari undirbúning, rannsóknir og hönnun virkjunarinnar. „Það er ekki spurning um að virkjun af þessari stærðargráðu myndi verða gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulíf hér á Vestfjörðum, ásamt því að opnast myndi á þann möguleika að tryggja orkuöryggi á svæðinu sem er mjög bágborið.“  Gunnar leggur þó áherslu á að verkefnið sé enn á frumstigi og að framundan séu fjölmargir verkþættir sem ráðast þarf í áður en endanleg ákvörðun verður tekin um byggingu virkjunarinnar.

Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA, segir fjárfesta horfa í auknum mæli til fjárfestinga í raforkugeiranum. „Síðustu misseri höfum við skoðað ýmis tækifæri í endurnýjanlegri raforkuframleiðslu og tengdum iðnaði og höfum fundið mikinn áhuga hjá viðskiptamönnum okkar fyrir þátttöku í slíkum verkefnum m.a. í gegnum sérhæfða fagfjárfestasjóði eins og Vatnsfall. Hvalárverkefnið er áhugavert fyrir margar sakir; það fær ágæta einkunn í rammaáætluninni og okkur sýnist allur undirbúningur þess til fyrirmyndar.“

VesturVerk er orkufyrirtæki í eigu heimamanna sem vinnur að undirbúningi virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði. Sjá nánar um VesturVerk á www.vesturverk.is.

GAMMA er rekstrarfélag verðbréfasjóða og rekur 3 verðbréfasjóði og 3 fagfjárfestasjóði. GAMMA er með um 17 ma í stýringu fyrir m.a. tryggingarfélög og lífeyrissjóði. Sjóðsstjóri Vatnsfalls er Lýður Þór Þorgeirsson B.Sc. í rafmagnsverkfræði og MBA. Sjá nánar um GAMMA á www.gamma.is.