22/12/2024

Vestfirsk bókakynning í Kópavogi

Vestfirðingar, brottfluttir og aðrir fjarri heimabyggð, boða til bókakynningar í Veitingahúsinu Catalinu, Hamraborg 11 í Kópavogi, miðvikudaginn 10. desember kl. 20:30. Þar verða kynntar og lesið úr þremur af þeim ellefu bókum sem Vestfirska forlagið á Þingeyri gefur út fyrir þessi jól. Önfirðingurinn Guðrún Jónína Magnúsdóttir á Hellu kynnir bók sína “Birta – ástarsaga að vestan” sem er þriðja og síðasta bókin í þessari ritröð. Áður  komu út bækurnar um Hörpu og Silju 2006 og 2007.

Ísfirðingurinn og Flateyringurinn Harpa Jónsdóttir í Vík í Mýrdal kynnir bók sína ”Húsið – Ljósbrot frá Ísafirði” sem er saga hússins að Hrannargötu 1 á Ísafirði og fyrst og fremst af fólkinu í kring um það og nánasta umhverfi. Harpa fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2002 og var bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar.

Þá kynna Bílddælingarnir Jón Kr. Ólafsson, söngvari þar og Hafliði Magnússon, rithöfundur sem nú býr á Selfossi, bók Hafliða um lífshlaup Jóns Kr. “Melódíur minninganna.” Jón Kr. Ólafsson er landskunnur söngvari og söng á sínum tíma með hljómsveitinni Facon á Bíldudal og allir þekkja lag þeirra “Ég er frjáls.” Pétur Bjarnason frá Bíldudal, sem samdi lagið, hefur sett saman hljómsveit að þessu tilefni og mun Jón Kr. taka lagið. Allir hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Meðfylgjandi mynd er frá Bókakaffi á Selfossi þar sem var fjölmenni og góð stemmning þann 5. des. á vestfirskri bókakynningu. F.v.: Með hattinn; Steingrímur Stefnisson Flateyri, Hafliði Magnússon Bíldudal fór á kostum við lesturinn, sitjandi við borðið; Guðrún Jónína Magnúsdóttir frá Ingjaldssandi og Þingeyringarnir Regína Höskuldsdóttir og Gerður Matthíasdóttir. Ljósm.: BIB