25/04/2024

KSH á súpufundi í hádeginu


Kaupfélag Steingrímsfjarðar verður með kynningu á starfsemi félagsins á vikulegum súpufundi Þróunarsetursins um atvinnu- og menningarmál á Ströndum á veitingastaðnum Café Riis á Hólmavík í dag þann 12. mars frá 12:00 – 13:00. KSH var stofnað árið 1898 þannig að segja má að starfsemi þess spanni yfir þrjár aldir en Kaupfélagið varð 110 ára á síðasta ári. Jón E. Alfreðsson mun ásamt arftaka sínum í starfi kaupfélagsstjóra, Jóni Eðvaldi Halldórssyni, fjalla um starfsemi kaupfélagsins. Þetta verður áttundi súpufundurinn í vetur sem eru haldnir í hádeginu á Café Riis alla fimmtudaga í vetur. Þátttaka á fundunum hefur verið framar öllum vonum. Tilgangur með þeim er að auka vitneskju heimamanna um fjölbreytt atvinnulíf á Ströndum og ekki síður að efla skilning á milli atvinnugreina með því að leiða saman frumatvinnugreinarnar og nýsköpun í atvinnulífi.