Categories
Frétt

Guðshús á grýttri braut

Vestfirska forlagið gefur út ellefu bækur nú á haustdögum og þar af eru hvorki fleiri né færri en þrjár sem fjalla um Strandasýslu og verður gerð grein fyrir þeim hér á næstunni. Skal þar fyrst fræga telja bókina Guðshús á grýttri braut, eftir síra Ágúst Sigurðsson. Þar er fjallað um kirkjur og staði í Strandasýslu og er þessi bók sú fórða og síðasta þar sem síra Ágúst segir frá kirkjum og kirkjustöðum á Vestfjörðum í stuttu og hnitmiðuðu máli. Yfir 600 ljósmyndir eru í þessari vestfirsku kirkjusögu.

Er ólíklegt að nokkurs staðar séu saman komnar jafn margar myndir af vestfirskum kirkjum, prestum, eiginkonum þeirra og niðum, leikmönnum, kirkjulegu starfi og athöfnum sem í umræddum bókum. Dugnaður Möðruvellingsins margfróða er dæmafár, en hann á líka hauk í horni þar sem er eiginkona hans Guðrún L. Ásgeirsdóttir sem styður hann með ráðum og dáð.