27/04/2024

Vestfirðir sumarið 2006

H-prent og Bæjarins besta á Ísafirði gefa nú í vor út vandað ferðaþjónustublað fyrir Vestfirði, tólfta árið í röð. Blaðinu verður sem áður dreift ókeypis í stóru upplagi og það látið liggja frammi á viðkomustöðum ferðafólks um land allt. Blaðið í fyrra var bæði efnismeira og vandaðra en nokkru sinni fyrr og mæltist mjög vel fyrir. Vinna við blaðið í ár er byrjuð og eru þeir sem hafa áhuga á að auglýsa í blaðinu eða koma að efni hvattir til að hafa samband við Hlyn Þór Magnússon (htm@snerpa.is). Stefnt er að því að blaðið í ár verði enn vandaðra og betra en í fyrra og áhersla verður lögð á sem mest jafnræði milli svæða á Vestfjörðum.

Ekki er gert ráð fyrir hagnaði af útgáfu blaðsins Vestfirðir sumarið 2006, enda hefur útgáfan fyrst og fremst verið hugsuð í þágu vestfirskrar ferðaþjónustu og framlag til atvinnulífs og mannlífs á Vestfjörðum.