07/10/2024

Vestfirðir fá umhverfisvottun

645-natturudagur3

Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa hlotið silfurvottun frá umhverfisvottunarsamtökunum EarthCheck. Eru þetta mikil gleðitíðindi fyrir sveitarfélögin sem hafa unnið að þessu verkefni, allt frá því að samþykkt var að stefna í þessa átt á Fjórðungsþingi á Hólmavík 2010. Umhverfisvottun fyrir Vestfirði í heild sinni var einnig eitt af meginatriðum í stefnu Ferðamálasamtaka Vestfjarða fyrir tímabilið 2010-2015.

Sveitarfélögin níu á Vestfjörðum hafa undanfarin þrjú ár staðist viðmið og viðurkenningu sem umsóknarsvæði, en sumarið 2016 var ákveðið að stíga skrefið að fullu og sækja um fulla vottun fyrir starfsárið 2015. Verkefnið hefur verið fjármagnað að hálfu sveitarfélaganna en nú á þessu ári var verkefnið samþykkt sem áhersluverkefni í Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 og með því aukna fjármagni var kleyft að taka þennan áfanga.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur haft umsjón með verkefninu fyrir hönd verkefnastjórnar sveitarfélaganna, en dagleg stjórnun hefur verið í höndum Línu Bjargar Tryggvadóttur verkefnastjóra FV.

Vottunarsamtökin EarthCheck eru alþjóðleg samtök sem hafa höfuðstöðvar í Ástralíu. Samtökin eru þróuð af fyrirtæki sem er í eigu ástralskrar ferðaþjónustu, ríkis og háskóla. EarthCheck eru einu samtökin sem umhverfisvotta starfsemi sveitarfélaga. Vottunin er veitt fyrir starfsemi sveitarfélaganna níu á Vestfjörðum og eru ýmsir þættir skoðaðir eins og innkaup sveitarfélaga, orkunotkun og nýting, vatnsnotkun og nýting, sorpförgun og endurvinnsla ásamt ýmsum öðrum þáttum.

Sveitarfélögin hafa einnig staðið að verkefninu Plastpokalausir Vestfirðir og er það verkefni sprottið út frá umhverfisvottunarverkefninu og hefur verkefnastjóri Fjórðungssambandsins stýrt því samhliða.

Vottunin eru mikil gleðitíðindi fyrir sveitarfélögin sem hafa með þessu verkefni sýnt gott fordæmi í umhverfismálum og fylgja í fótspor sveitarfélaga á Snæfellsnesi, en þau eru með gullvottun frá EarthCheck.

vottun-2016