04/10/2024

Þriðja sögurölt sumarsins í Klofning og Kumbaravog

Í sumar hafa Byggðasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum staðið saman að sögurölti í samvinnu við ýmsa aðila og hafa viðburðirnir verið mjög vel sóttir. Miðvikudaginn 11. júlí verður þriðja söguröltið og að þessu sinni hefst það klukkan sjö (kl. 19). Upphafsstaður er við Klofning sem er við veginn fyrir strandir í Dalasýslu, yst á milli Skarðsstrandar og Fellsstrandar. Hringurinn fyrir strandir er alls 90 km langur um misgóða malarvegi. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá eru menn komnir að Klofningi þegar keyrt er gegnum klofna kletta. Röltið ætti ekki að vera lengra en 2 km með öllum útúrdúrum, upp og niður, niður og upp.

Farið verður upp á Klofning að hringsjá sem þar er og notið útsýnisins. Spjallað verður m.a. um búsetu, strauma, siglingaleiðir og annað er kemur upp í hugann varðandi eyjarnar fyrir mynni Hvammsfjarðar.

Þá verður rölt niður í Kumbaravog í landi Mela. Munnmæli eru um verslun Íra þar á fimmtándu öld. Kaupfélag Skarðsstrendinga hafði þar í upphafi aðsetur sitt. Þar er og húsmennskubýlið Grænanes. Síðan má ekki gleyma fuglalífi, útsýni og ægifögru sólarlagi þegar þannig stendur á.

Með sögum, spjalli og rölti tekur þetta allt að tveimur tímum, en svo er líka hægt að láta sér Klofninginn nægja og halda áfram ferð fyrir strandir. Söguröltið er einnig hluti af dagskrá evrópska menningararfsársins 2018, þar sem íslenska þemað er strandmenning. Meðfylgjandi ljósmynd er frá Valdísi Einarsdóttur.