19/04/2024

Ísland altengt

Inn á heimili um land allt hefur nú borist kynningarbæklingur um Fjarskiptaáætlun til 2010. Eins eru fyrirhugaðir fundir víða um land, en enginn þeirra er reyndar á Ströndum. Strandamenn eiga styst að fara inn á Hvammstanga til að upplifa slíkan fund. Það er mikið gleðiefni fyrir Strandamenn og landbyggðina alla að í áætluninni er gert ráð fyrir að allir landsmenn sitji við sama borð óháð búsetu. Einnig kemur fram að stuðla á að jöfnun á verði á fjarskiptaþjónustu um land allt, en hvort tveggja mun þýða verulegar breytingar á aðstöðu Strandamanna, bæði heimila og fyrirtækja.

Eins og staðan er nú borga Strandamenn töluvert hærra verð en aðrir fyrir miklu lélegri nettengingar, ISDN-tengingar eru það besta sem býðst víða í dreifbýlinu, ADSL-tengingar og ljósleiðarakerfi þekkjast hvergi á svæðinu, GSM-samband næst aðeins á einstaka bletti og í þéttbýlinu, tvær sjónvarpsstöðvar (RÚV og Stöð 2) nást þar sem best lætur og annað er eftir því.

Ljóst má vera að margir Strandamenn taka boðuðum umbótum með töluverðum fyrirvara og bíða með fagnaðarlætin þangað til umbæturnar hafa verið gerðar.