14/10/2024

Vegagerð í Bjarnarfirði

Vegagerð Bjarnarfjörður

Borgarverk vinnur nú að vegagerð í Bjarnarfirði á Ströndum, en tilboð í verkið voru opnuð í ágúst á síðasta ári og bauð Borgarverk þá 338 millj. í verkefnið en ný tvíbreið brú á Bjarnarfjarðará er ekki inni í því tilboði. Um er að ræða 7,35 km langan veg um Bjarnarfjarðarháls og að Svanshóli, 7 metra breiðan með bundnu slitlagi. Fjölmargar bílveltur og útafakstrar hafa orðið á Bjarnarfjarðarhálsi. Á samgönguáætlun til fjögurra ára sem lögð var fram á þingi nýlega er 280 milljónum varið í verkefnið árið 2016, en 170 á árinu 2017.

Framkvæmdir eru komnar vel af stað í Bjarnarfirði og verið er að leggja af stað með veginn upp á hálsinn ofan við sumarhúsið Skarðshlíð, eins og sjá má af myndunum. Heyrst hefur gagnrýni á að nýi vegurinn sé hannaður þannig á hálsinum að hann liggi mjög lágt í landinu, þannig að hætta sé á snjósöfnun á veginn. Það gæti orðið farartálmi að óþörfu og kemur sér illa þar sem ekki er vetrarþjónusta daglega.

IMG_2801 (2) IMG_2810 (2) IMG_2813 (2) IMG_2817 (2) IMG_2822 (2) IMG_2827 (2) IMG_2832 (2)

Vegagerð í Bjarnarfirði – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is