16/06/2024

Vegabætur norðan Hólmavíkur

Nú þegar endanleg vegaáætlun fyrir árin 2005-8 með breytingatillögum meirihlutans liggur fyrir á Alþingi er einnig búið að skipta fjármagni til tengivega og ferðamannaleiða á landinu. Í breytingatillögu meirihluta Samgöngunefndar koma þessar tölur fram og eru nú orðnar aðgengilegar á vef Alþingis. Þarna kemur m.a. fram í kaflanum um tengivegi að á næstu 4 árum á að setja 182 milljónir í Drangsnesveg (645) frá vegamótum á Strandavegi að Drangsnesi. Á þessu ári á að setja 2 milljónir í lýsingu á Drangsnesi og á næsta ári 10 milljónir í leiðina um Bjarnarfjarðará. 16 milljónir fara svo í spottann frá vegamótum í Staðardal og að Hálsgötugili árið 2008.

Í kafla um brýr 10 metra og lengri kemur fram að á næstu 4 árum er sett fjármagn í brúna um Bjarnarfjarðará, 36 milljónir árið 2006. Einnig er sett fjármagn í brúna um Hrútafjarðará, rúmlega 100 milljónir á árunum 2006-7. Fréttaritara er ekki ljóst hvort sú aðgerð hefur í för með sér færslu á veginum við Brú í Hrútafirði eða ekki.

Í kafla um ferðamannaleiðir kemur fram að setja á 99 milljónir í Strandaveg (norður í Árneshrepp) á þessum 4 árum og skiptist það nokkuð jafnt á árin. Tekið er fram að þar er um að ræða veginn milli Ásmundarness og Kaldbaksvíkur. Enginn fjárveiting er í leiðina um Bjarnarfjarðarháls.

Skriðu rutt burt í Kaldbakskleif í vetur – ljósm. Kalli Þór og Jón Gísli

Merking við veginn yfir Steinadalsheiði – ljósm. Jón Jónsson