08/10/2024

Veðrið í október 2007

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur fengið yfirlit um veðrið í október frá Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík í Árneshreppi. Þar kemur fram að mánuðurinn var umhleypingasamur í heild og úrkomulausir dagar í mánuðinum voru aðeins þrír. Mikil úrkoma var aðfaranótt 6. okt. og mældist úrkoman þá 29,5 mm og er það met í Litlu-Ávík síðan mælingar hófust þar í ágúst 1995. Sólarhringsúrkoman mældist 38 mm. Mikil úrkoma var í mánuðinum og hefur aldrei mælst eins mikil úrkoma í október síðan mælingar hófust eða 204,5 mm, en 1995 og 1996 mældist úrkoma í október 183,3 og 179,9 mm. Er þetta því í fyrsta sinn sem úrkoma fer yfir 200 mm í einum mánuði. Fyrst í haust var alhvít jörð að morgni 6. okt. og mældist snjódýpt þá 6 cm.

Veðrið eftir dögum októbermánaðar:

1. – Suðlæg vindátt, kaldi síðan allhvass, rigning síðan skúrir, hiti 5 til 12 stig.
2. – Norðvestan, kul eða gola, rigning eða súld, kólnandi í bili, hiti frá 9 stigum niðrí 3 stig.
3. – Sunnan kaldi og stinningskaldi, smá skúrir, hlýnaði í veðri, hiti 5 til 10 stig.
4. – Breytilegar vindáttir og hægviðri, kul, smávegis súld og rigning, 6 til 10 stig.
5.-6. – Norðlæg vindátt, kaldi í fyrstu síðan allhvass og hvassviðri, rigning og mikil slydda og snjókoma aðfaranótt 6., kólnaði verulega í veðri, hiti frá 6 stigum niðrí 0 stig.
7. – Norðvestan og vestan, kaldi eða stinningskaldi, þurrt, hiti 4 til 7 stig.
8. -Breytilegar vindáttir, kul eða gola, þurrt í veðri, hiti 4 til 7 stig.
9. -Norðaustan, allhvass síðan kaldi, súldarvottur, hiti 2 til 3 stig.
10.-11. – Norðvestan eða breytilegar vindáttir, gola, rigning eða súld, hiti 3 til 5 stig.
12.-13. – Suðlægar vindáttir, stinningsgola, kaldi, rigning eða skúrir, hlýnaði í veðri, hiti 5 til 13 stig.
14.-16. – Norðaustan í fyrstu síðan norðan, stinningskaldi og allhvass um tíma þann 15., rigning í fyrstu síðan slydda og snjókoma, þurrt þann 16., kólnaði í veðri, hiti frá 4 stigum niðrí frostmark.
17. – Suðaustan hægviðri, kul, þurrt, frost 1 til 4 stig.
18.-20. – Suðaustan og sunnan, kaldi upp í allhvassan vind, rigning eða skúrir, hlýnandi veður, hiti 1 til 12 stig.
21. – Breytilegar vindáttir, kul eða gola, rigning, hiti frá 7 og niðrí 4 stig.
22. – Austan stinningsgola síðan stinningskaldi, slydda, snjókoma, rigning, hiti frá 0 stigum upp í 6 stig.
23.-27. – Suðlægar vindáttir, kaldi, stinningskaldi, en allhvass og hvassviðri um tíma þann 27., rigning, slydda, skúrir, hiti 1 til 8 stig.
28. – Norðvestan stinningsgola, snjóél, hiti 1 niðrí 0 stig.
29.-31. – Norðaustan og austan og síðan norðan, kaldi, allhvass og hvassviðri en stormur um tíma að morgni 31., él, slydda, snjókoma, hiti frá 2 stigum niðrí 2 stiga frost.

Úrkoman mældist 204,5 mm. Mestur hiti var þann 12. okt. eða 13 stig en mest frost var þann 17. þá -4,4 stig. Mesta snjódýpt var 19 cm þann 31. okt. Alhvít jörð var í 8 daga, flekkótt í 4 daga og auð jörð var í 19 daga. Sjóveður var rysjótt í mánuðinum.

Veðuryfirlitið er tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.