29/05/2024

Veðrið í febrúar 2009 í Árneshreppi

Að venju birtum við yfirlit yfir veðrið frá Veðurstöðinni í Litlu-Ávík í Árneshreppi, sem Jón G. Guðjónsson tók saman. Febrúar var kaldur í heild, byrjaði með kulda og var talsvert frost fram til 12. febrúar, en vindur oftast hægur. Þá gerði smá blota, hlýnaði og kólnaði á víxl með svellalögum, þannig að gífurleg hálka myndaðist. Það snjóaði svo talsvert þann 20., en smá bloti var aftur þann 21. febrúar. Síðan að mestu norðaustan út mánuðinn með frosti, éljum og snjókomu. Nú voru norðan og norðaustanáttirnar kaldar, en voru nokkuð hlýjar í janúar.

Yfirlit eftir dögum:

1.-2.: Suðlæg vindátt andvari eða gola, þurrt í veðri, hiti frá +1 stig niðrí -5 stig.
3.-12.: Norðan, norðaustan eða austlægar vindáttir, gola og uppí stinningskalda og jafnvel kalda, lítilsháttar él, hiti frá 0 og niðri -8 stig.
13.-16.: Breytilegar vindáttir eða austlægar, logn, kul eða gola, él þann 13. annars slydda eða rigning, hiti frá -3 stig til +6 stig.
17.-19.: Sunnan og suðvestan, oftast kaldi, en stormur aðfaranótt 19. og fram á morgun, rigning, skúrir og síðan él, hiti frá +9 stigum niðri -2 stiga frost.
20.: Norðaustan stinningsgola eða kaldi með snjókomu, hiti frá +1 stigi niðri -1 stig.
21.: Logn eða breytileg vindátt í fyrstu, síðan vestan stinningskaldi og allhvass um kvöldið, snjókoma um morguninn, síðan lítils háttar rigning, en þurrt um kvöldið, hiti +0 til +5 stig.
22.: Norðvestan og norðan stinningsgola, snjókoma með köflum, frost -1 til -5 stig.
23.-25.: Norðaustan eða austan, oftast allhvass eða hvassviðri með snjókomu, frost -1 til -5 stig.
26.: Norðaustan stinningsgola síðan austan gola, lítils háttar él, frost -3 til -5 stig.
27.-28.: Logn eða suðlæg vindátt með andvara, snjókoma með köflum þann 27., annars þurrt, frost 0 til -7 stig.

Úrkoman mældist 53,0 mm en var 69,8 mm í febrúar 2008,
Úrkomulausir dagar voru 6,
Mestur hiti var aðfaranótt 18. feb.: +9,3 stig.
Mest frost var að morgni 12. feb.: -8,1 stig.
Jörð var alhvít í 22 daga, flekkótt í 5 daga og auð í 1 dag.
Mesta snjódýpt mældist þann 28. feb.: 28 cm.
Meðalhiti við jörð var -4,34 stig en í febrúar 2008 var hann -3,66.
Sjóveður var gott eða sæmilegt dagana 1.-9. og 12.-16. og dagana 27.-28., annars slæmt eða ekkert sjóveður, vegna hvassviðra eða sjógangs.

Tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.