22/12/2024

Veðrið í apríl 2008

Drangaskörð - ljósm. Jón G.G.Að venju birtum við hér mánaðarlegt yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík sem Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður hefur tekið saman. Aprílmánuður var umhleypingasamur fram undir miðjan mánuð, en mest norðaustan- eða suðvestanáttir. Þann 15. hlýnaði verulega með suðlægum áttum og góðviðri fram til 21. apríl. Síðan norðvestan og norðan þræsingur með ofankomu síðustu daga mánaðar. Úrkoman var óvenju lítil í mánuðinum, en hún mældist 28,5 mm.

Veðrið eftir dögum:

1.-4.: Norðaustan og norðan þann 4., kaldi en allhvass og hvassviðri þann 3. með snjókomu, síðan él, úrkomulaust 1. og 2., hiti frá 1 stigi niðrí 4 stiga frost.
5.-6.: Breytilegar vindáttir, logn eða gola, úrkomulaust, frost frá 6 stigum upp í 3 stiga hita þann 6.
7.: Suðvestan kaldi, þurrt fram á kvöld, hiti 4 til 7 stig.
8.-13.: Norðan og síðan norðaustan kaldi, en allhvass 9. og 10., síðan stinningsgola, él eða slydda, frost á kvöldin og yfir nóttina 1-3 stig, en hiti yfir daginn 1-2 stig.
14.-15.: Suðvestan stinningsgola en stinningskaldi þann 15., þurrt í veðri. Frost í fyrstu, síðan hlýnandi, frost frá 4 stigum upp í 6 stiga hita.
16.-21.: Hægviðri, breytilegar vindáttir, logn, andvari eða kul, yfirleitt þurrt í veðri, hiti 3-10 stig.
22.-25.: Norðvestan gola eða stinningsgola, þoka eða þokuloft og súld, hiti frá 4 stigum niðrí 1 stig.
26.-30.: Norðan kaldi eða stinningskaldi, snjókoma, slydda eða él, frost frá 2 stigum upp í 2 stiga hita.

Mestur hiti mældist þann 18. apríl þá 10 stig, en mest frost mældist þann 5., þá 6,5 stig.

Jörð var talin alhvít í 9 daga, flekkótt í 21 dag, en engan dag auð. Mesta snjódýpt mældist 21 cm dagana 1.-2. og 4.-5.

Slæmt sjóveður var 1 til 3 og 8 til 10 og 26 til 30,annars gott sjóveður.

Tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.