19/04/2024

Sérkennilegt óhapp

Í síðustu viku lenti  ökumaður á Ennishálsi í óvenjulegum vanda svo ekki sé meira sagt. Tildrög þessa voru þau að ökumaðurinn sem var einn í bílnum ætlaði að skipta um hljómdisk í spilaranum og ákvað hann stoppa á meðan til að skapa ekki óþarfa hættu með því að gera þetta á ferð. Hann stoppaði vel út í kanti og skipti um diskinn. En þegar átti að keyra af stað aftur vildi ekki betur til en svo að bíllinn spólaði sig út af með hægri hliðina og sat fastur. Ef þetta hefði bara verið svona eins og þetta leit fyrst út fyrir, þá hefði ekki verið vandkvæðum bundið fyrir venjulegan jeppa að draga hann upp á veginn aftur. Það hélt jeppaeigandi líka sem kom að þessu, hann togaði og togaði en það var eins og jörðin hefði bitið sig fasta í bílinn.

Þegar var farið að skoða málið þá hafði bílnum verið lagt beint fyrir ofan snjóstikufestingu, sem er tveggja tommu rör sem stóð tuttugu sentimetra upp úr vegkantinum. Vegna þess að snjór var í kantinum þá sást það ekki og hafði rörið gengið upp í olíupönnuna og gert gat á hana og allt sat fast. Fyrst þurfti að lyfta bílnum að framan með dráttarbíl áður en hægt var að draga hann burt af staðnum. Að sögn ökumannsins taldi hann sig vera að stöðva bílinn vel fyrir innan kantinn, því stikan sem átti að vera í áðurnefndri festingu var einhverra hluta vegna ekki á sínum stað heldur vel fyrir utan veginn og var því erfitt að átta sig á hvar vegkanturinn var.

Bíllinn var svo dreginn á verkstæði og gert við hann þar. En eftir óhappið er olíupannan ónýt ásamt fleiri smá skeinum, þannig að um töluvert tjón var að ræða.

Ljósm. Sveinn Karlsson