16/10/2024

Vaxtarsprotar – efling atvinnulífs í sveitum

Impra nýsköpunarmiðstöð og Framleiðnisjóður landbúnaðarins eru að ýta úr vör nýju þróunarverkefni sem er nefnt Vaxtarsprotar. Það hefur að markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum. Verkefnið hefst með kynningar- og hvatningarfundum og verða tveir slíkir haldnir á starfssvæði Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda sunnudaginn 18. febrúar. Þar verða í boði áhugaverð erindi sem er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um umhverfi sitt og tækifæri sem kunna að vera fyrir hendi, m.a. flytur Andri Snær Magnason rithöfundur þar erindi með titilinum Hugmyndir um hin nýju hlunnindi sveitanna. Allir eru velkomnir á kynningarfundina.

Aðrir fyrirlesarar verða Elín Aradóttir, verkefnisstjóri hjá Impru nýsköpunarmiðstöð, sem kynnir verkefnið Vaxtarsprota og Ólöf Hallgrímsdóttir, ferðaþjónustubóndi og frumkvöðull á sviði heimavinnslu afurða í Vogum í Mývatnssveit, sem segir frá reynslu sinni og gefur góð ráð.

Kynningarfundirnir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

· Sævangi, Strandabyggð, sunnudaginn 18. febrúar 2007, kl. 13:00.
· Gauksmýri, Húnaþingi vestra, sunnudaginn 18. febrúar 2007, kl. 20:30.

Með verkefninu vilja aðstandendur verkefnisins hvetja fólk til að koma auga á atvinnutækifæri í heimabyggð. Þátttakendum í verkefninu stendur til boða margvíslegur stuðningur til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og er þátttaka án endurgjalds. Lykilspurningar sem þátttakendur í verkefninu munu leita svara við eru m.a:  Eru ónýtt atvinnutækifæri í næsta nágrenni? Hvað get ég gert til að auka tekjur mínar og/eða bæta atvinnumöguleika mína með eigin atvinnurekstri? Hvernig á ég að fara að því og hvað mun ráða úrslitum um árangur?

Allir eru velkomnir á kynningarfundina en verkefnið sjálft verður í framhaldinu opið öllum íbúum í sveit á starfssvæði Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda, óháð eðli viðskiptahugmynda, atvinnugreinum sem viðskiptahugmyndir beinast að, eða reynslu þátttakenda á sviði atvinnurekstrar.

Verkefnið byggir á ákveðnu ferli sem í hnotskurn má lýsa á eftirfarandi hátt:
1. Hvatning og kynning á þeim möguleikum sem í verkefninu felast
2. Aðstoð við hugmyndavinnu
3. Fræðsla og handleiðsla við undirbúning viðskiptahugmynda (bæði á námskeiðaformi og einstaklingsmiðuð fræðsla)
4. Fjárstyrkur til undirbúningsvinnu
5. Fjárstyrkur til framkvæmda
6. Eftirfylgni og áframhaldandi handleiðsla

Þátttakendur í verkefninu njóta handleiðslu ráðgjafa Impru nýsköpunarmiðstöðvar á verkefnistímabilinu en slík þjónusta er hluti af reglulegri starfsemi Impru og er án endurgjalds. Einnig munu ráðunautar og atvinnuráðgjafar í einhverjum tilfellum koma að verkefnum þátttakenda.

Hægt er að skrá sig til þátttöku í verkefninu og nálgast frekari upplýsingar hjá Elínu Aradóttur, verkefnisstjóra hjá Impru nýsköpunarmiðstöð, í síma 460 7970 eða í gegnum tölvupóst (elina@iti.is). Á kynningarfundum verkefnisins verður einnig tekið við skráningum til þátttöku í verkefninu.