24/06/2024

Vatnsleysið, orsakir og afleiðingar

Frá HólmavíkVatnsleysið í vikunni hefur haft umtalsverð óþægindi í för með sér fyrir íbúa Hólmavíkur. Fjárhagslegur skaði er þó sýnu mestur fyrir langstærsta notanda vatns á svæðinu, Hólmadrang ehf, auk að sjálfsögðu Hólmavíkurhrepps sjálfs. Orsakir bilana í dæluskúr vatnsveitunnar eru ekki að fullu kunnar, en á skrifstofu Hólmavíkurhrepps fengust þær upplýsingar að starfsmenn áhaldahúss teldu að fyrri bilunin stafaði af sliti í lögn. Fréttaritari hefur heimildir fyrir því að bilunin í gær, þegar dæla gaf sig, væri líklega af því að dælan hefði skemmst vegna sands í vatninu.

Framleiðsla Hólmadrangs ehf stöðvaðist um kl. 11:00 á þriðjudag þegar vatnið þraut, enda notar rækjuverksmiðja félagsins um 120 tonn af vatni á klukkustund til framleiðslu á um 1,2 tonni af rækju. Að sögn Gunnlaugs Sighvatssonar framkvæmdastjóra er áætlað að skaði fyrirtækis vegna þessa hafi numið yfir hálfri milljón króna þennan dag. Þar er um að ræða tapaða framlegð upp á um 320 þúsund, auk 130 þúsund króna í launakostnað, þar sem vinnuafl nýttist ekki til framleiðslu á þessum tíma. Þá töpuðust um 100 þúsund krónur vegna verri nýtingar þess hráefnis sem búið var að undirbúa fyrir vinnslu, en náðist ekki að vinna fyrr en hátt í sólarhring síðar. Gæði hráefnis beið sem betur fer ekki annan skaða af og því hægt að framleiða afurð af hefðbundnum gæðum.

Fyrir nokkrum dögum síðan héldu stjórnendur Hólmadrangs fund með sveitarstjóra og hreppsnefnd og var þar m.a. farið yfir áherslur fyrirtækisins varðandi vatnsmál. "Þetta er ekki í fyrsta skipti sem vatnsskortur verður fyrirvaralaust vegna þess að eftirliti með dælubúnaði er ábótavant. Stjórnendur fyrirtækisins hafa margoft lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa og ítrekað hvatt til að settur verði upp upphringibúnaður sem láti vita ef bilun verður á dælubúnaði. Eins og þessu er nú háttað verður ekki vart við neitt fyrr en vatnsþrýstingur fellur og vatnstankur er að verða tómur. Slíkt andvaraleysi er algerlega ólíðandi og hefur nú skapað stórtjón fyrir Hólmavíkurhrepp, Hólmadrang og mögulega fleiri fyrirtæki í sveitarfélaginu," sagði Gunnlaugur í samtali við fréttaritara.

Í gær stöðvaðist vinnsla hjá Hólmadrang aftur í um 1 klst vegna vatnsskorts. Tap fyrirtækisins vegna vatnsskortsins er því a.m.k. á milli 6-700 þúsund krónur.