23/12/2024

Úthlutun Menningarráðs á föstudag

Dýrin í HálsaskógiÁ föstudaginn, 21. nóvember kl. 16:00, verður athöfn í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði þar sem afhentir verða styrkir frá Menningarráði Vestfjarða vegna síðari úthlutunar ársins 2008. Alls eru veittir styrkir til 52 verkefna að þessu sinni, samtals að upphæð 17,4 milljónir, Styrkir fara til fjölbreyttra verkefna sem sýna glöggt þann kraft, frumkvæði og nýsköpun sem einkennir vestfirskt menningarlíf. Verkefni sem tengjast útgáfu og miðlun eru áberandi í hópi þeirra verkefna sem styrkt eru að þessu sinni, en allir sem sóttu um hafa fengið svar í tölvupósti með niðurstöðu hvað varðar þeirra umsóknir. Heildarlisti um styrkt verkefni verður birtur á vef Menniningarráðsins á föstudag og sendur fjölmiðlum á Vestfjörðum.

Athöfnin á Patreksfirði á föstudag er opin öllum sem áhuga hafa og sveitarstjórnarmenn og þeir sem standa í eldlínunni í menningarstarfi á Vestfjörðum eru sérstaklega boðnir velkomnir. Í lokin á þessari formlegu athöfn verður boðið upp á léttar veitingar í Sjóræningjahúsinu fyrir gesti.

Menningarráð Vestfjarða mun næst auglýsa eftir umsóknum til verkefna á menningarsviðinu snemma á nýju ári.