04/05/2024

Úrskurður um Arnkötludal

Í úrskurði Umhverfisráðherra um niðurstöðu Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum vegar um Arnkötludal er tekið verulegt tillit til röksemda Vegagerðarinnar. Vegagerðin var kærandi og vildi að ákveðin skilyrði fyrir framkvæmdunum væru felld úr gildi. Þó eru skilyrðin ekki felld niður, en breytt þannig að þau eru ekki eins íþyngjandi og áður og nú verður hægt að framkvæma yfir sumartímann. Þær breytingar sem ráðherra gerir á niðurstöðu Skipulagsstofnunar eru kynntar hér að neðan:

Vegagerð um veglínu sem kölluð er 6N er hafnað í úrskurði Umhverfisráðherra, en hún var leyfð í úrskurði Skipulagsstofnunar. Komið hafði í ljós meinleg villa í fyrirliggjandi gögnum þannig að samfelldar hallamýrar á því svæði sem myndi spillast við vegagerðina voru miklu umfangsmeiri en áður hafði komið fram. Þessi leið var aðeins ein veglína af mörgum sem teknar voru til skoðunar og hefur aðeins áhrif á endanlegt val á veglínu, en ekki á framkvæmdirnar sjálfar. Breytingar á skilyrðunum sem krafist var að felld yrðu niður eru eftirfarandi:

Skilyrði númer 2 breytist og er orðað þannig:

Framkvæmdaaðili skal láta kanna hugsanleg varpsvæði gulandar og straumandar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði áður en framkvæmdir hefjast í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Ef í ljós kemur eftir þá könnun að gulönd og straumönd verpa þar skal framkvæmdaaðili grípa til aðgerða sem tryggja að varpstaðir raskist ekki og að varp þessara tegunda verði ekki fyrir truflun af völdum framkvæmdanna.

Þetta skilyrði var áður þannig: Framkvæmdaaðili þarf að tryggja á varptíma, frá maílokum og fram undir ágústlok, standi ekki yfir framkvæmdir á svæði frá Hrófá að Vonarholti í Arnkötludal og við Foss í Gautsdal.

Skilyrði númer 3 breytist og er orðað þannig:

Framkvæmdaaðili skal, í samráði við Veiðimálastjóra, haga framkvæmdum þannig að lágmarkað verði grugg í fiskgenga læki og ár á tímabilinu 15. júní til 30. september vegna framkvæmdanna.

Þetta skilyrði var áður þannig: Framkvæmdaraðili þarf í samráði við Veiðimálastjóra, að tryggja að grugg berist ekki í fiskgenga læki og ár á tímabilinu 15. júní til 30. september.