30/04/2024

Upplestur í Skelinni og á Héraðsbókasafninu

Gunnar Theodór Eggertsson og Yrsa Þöll Gylfadóttir doktorsnemar í bókmenntafræði eru nú gestir í Skelinni á Hólmavík, lista- og fræðimannadvöl Þjóðfræðistofu í Hólmakaffi á Hafnarbraut 7. Þau bjóða Strandamenn velkomna í heimsókn í Skelina föstudagskvöldið 10. desember kl. 20:00, en þá ætla þau að lesa úr verkum sínum. Gunnar Theodór hefur gefið út tvær bækur, annars vegar barnabókina Steindýrin sem hlaut íslensku barnabókaverðlaunin árið 2008, og hins vegar hugleiðingarritið Köttum til varnar, sem kom út nú í nóvember. Yrsa Þöll gaf nýverið út sína fyrstu skáldsögu, Tregðulögmálið, sem fjallar um háskólastúlkuna Úlfhildi sem er að vakna til vitundar um heiminn í kringum sig. Tregðulögmálið hefur hlotið góða dóma gagnrýnenda.

Gunnar Theodór mun einnig lesa upp úr barnabók sinni Steindýrin fyrir börnin í Grunnskólanum á Hólmavík og aðra gesti á Héraðsbókasafninu, föstudaginn 10. desember kl. 10:30.

Allir íbúar og gestir á Ströndum eru velkomnir á báða viðburðina.