14/12/2024

Undirbúningur fyrir sviðaveislu í Sævangi


Nú stendur undirbúningur fyrir sviðaveislu í Sævangi sem hæst, en hún verður haldin næstkomandi laugardag og opnar húsið kl. 19:00. Ester Sigfúsdóttir framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins sem stendur fyrir veislunni segir að það stefni allt í fínustu skemmtun: "Hinn síkáti Arnar Snæberg frá Steinadal verður veislustjóri og svo spila og syngja Viðar Guðmundsson í Miðhúsum og stórsöngvari úr Borgarfirði sem heitir Snorri Hjálmarsson. Stefán Gíslason frá Gröf í Bitru er líka búinn að lofa að vera með vísnaþátt og svo er ætlunin að dansa eftir matinn og skemmtiatriðin. Guðbjartur Björgvinsson ætlar að spila á harmonikku."

Enginn verður heldur svikinn af matnum segir Ester, en á boðstólum verða köld og heit ný svið og það sem við á að eta, einnig reykt og söltuð svið, sviðalappir og sviðasulta. "Í eftirmat verða svo blóðgrautur og rabbarbaragrautur," segir Ester. Miðaverð er kr. 4.000.- og þarf að panta miða í síðasta lagi 24. október í síma 823-3324 eða í saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is.

Verið er að standsetja Sævang fyrir skemmtunina, en fært verður til í salnum þar sem fastasýning Sauðfjársetursins er, til að hægt verði að dansa. "Það hefur lengi verið ætlunin að setja flekana sem bera sýninguna uppi á hjól, þannig að hægt sé að færa þá til og stilla þeim upp eftir því hvað er um að vera í húsinu," segir Ester. "Við ákváðum að grípa tækifærið núna í tengslum við sviðaveisluna til að gera þetta að veruleika. Í framhaldinu getum við svo verið með alls konar uppákomur í salnum og á sviðinu, kaffileikhús og skemmtanir, með lítilli fyrirhöfn."

Stjórnarmenn í Sauðfjársetrinu og sjálfboðaliðar voru í dag að bardúsa við þessar breytingar, þegar meðfylgjandi myndir voru teknar.

Brotið

frettamyndir/2012/645-brot1.jpg

Breytingar í Sævangi – ljósm. Ester Sigfúsdóttir