26/04/2024

Umsjón með leyfisveitingum í stað lögreglustjórnar

Eins og kunnugt er flyst lögreglustjórn frá sýslumannsembættinu á Hólmavík um áramótin til Ísafjarðar. Alllangt er síðan dómsmálaráðuneytið kynnti áætlun um að flytja í staðinn verkefni til þeirra embætta sem misstu lögreglustjórn og hafa Strandamenn bundið nokkrar vonir við að þau myndu skipta máli fyrir atvinnulíf á staðnum. Nú hefur Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri í Strandabyggð upplýst hér á spjalltorginu að um tvö smáverkefni sé að ræða, sem þó eigi eftir að samþykkja á alþingi, og ekki fylgi fjárveiting til þeirra. Eitt stöðugildi á sýsluskrifstofunni sem lagt var niður fyrir fáum misserum verði endurvakið.

Verkefnin sem um er að ræða er annars vegar umsjón og eftirlit með leyfisveitingum til fasteignasala og hins vegar útgáfa leyfa og eftirlit með happdrættissölu, þó fyrir utan stóru happdrættin. Þetta kom fram á fundi Kristínar Völundardóttur sýslumanns með sveitarstjórnarmönnum fyrr í mánuðinum.

Opinberum störfum og verkefnum þeirra opinberu stofnanna sem starfa á Ströndum hefur fækkað umtalsvert síðustu árin.