22/12/2024

Umhverfisátak á Hólmavík

Í fréttatilkynningu frá Hólmavíkurhreppi, kemur fram að næsta sunnudag, þann 28. maí, stendur hreppurinn fyrir hreinsunarátaki með íbúum. Reiknað er með að hefjast handa kl. 13.00 og að allir taki höndum saman um að taka til, mála, slá, girða eða gera annað sem gera þarf. Ákveðnir hverfastjórar sjá um framkvæmd og skipulagningu. Áður hafði staðið til að hafa umhverfisdaginn nú á fimmtudaginn, en horfið var frá því vegna veðurs og veðurútlits.

Starfsmenn hreppsins verða síðan á ferð og flugi frá kl. 14:00 við að hirða rusl og garðaúrgang sem er settur út við lóðamörk. Mikilvægt er að halda öllu járnarusli sér. Klukkan 18:00 hittast svo allir upp við Grunnskóla þar sem hreppurinn mun sjá um að hafa heitt grill tilbúið. Fólk þarf hins vegar sjálft að hafa með sér mat á grillið, tjaldborð, stóla (ef veður leyfir til að borða úti), drykkjarföng og góða skapið.  

Hverfi og hverfastjórar:

Lækjartún og Vesturtún: Birna og Eysteinn
Víkurtún: Rósmundur og Lýður
Austurtún: Valdemar og Ragnheiður
Hafnarbraut utan Klifs: Röfn og Helgi Jóhann
Miðtún: Jón Halldórsson
Borgabraut: Rúna Guðfinns og Þorbjörg
Brattagata, Snæfell, Bræðraborg og Kópnesbraut: Sólrún og Brynja
Hafnarbraut innan Klifs, Brunnagata og Höfðagata: Þorsteinn og Daníel
Skólabraut og Vitabraut: Inga Foss og Villi Sig.

Eigendur fyrirtækja og stofnana eru einnig hvött til að taka þátt í átakinu þannig að bærinn verði orðinn hreinn og snyrtilegur fyrir Hvítasunnuhelgina. 

Nú er leiðindaveður á Hólmavík – ljósm. Dagrún Ósk