14/09/2024

Umferðaróhapp í Djúpi

Um kl. 21:00 í gærkvöldi varð það óhapp að jepplingur lenti á brúarhandriði á brúnni yfir Hvannadalsá. Kröpp beygja er á veginum þegar komið er að brúnni frá Langadalsströndinni. Mikil hálka var í beygjunni sem hallast inn og skipti engum togum að þegar ökumaðurinn kemur í beygjuna og hægir á inn á brúna þá rennur jepplingurinn inn úr beygjunni og lendir beint á endann á handriðinu, sem gekk djúpt inn í jepplinginn þar sem hann var veikastur fyrir svo úr draup. Var bíllinn óvígur eftir, en ökumanninn sem var einn í bílnum sakaði ekki.

Fyrir utan nokkur ljót orð frá ökumanninum um óhappið var hann hinn hressasti, en jepplingurinn sem er nánast nýr var fluttur burt með krana til aðhlynningar.

Á föstudaginn varð einnig óhapp innanbæjar á Hólmavík í Bröttugötu sem er gatan upp að heilsugæslunni. Ökumaður sem var á leið niður brekkuna á fólksbíl missti stjórn á bílnum í fljúgandi hálku og endaði á húsi sem kallað er Græni skúrinn og stendur þar neðan við. Nokkrar skemmdir urðu á framenda bílsins, en enginn meiddist. Á Græna skúrinn er ekið reglulega, á 2-3 ára fresti, en skemmdir á honum eru sjaldnast verulegar.

Framendi bílsins sem hafnaði á græna skúrnum á föstudaginn.