30/10/2024

Tröllamynd eða nornasveimur í fjöru á Ströndum

Fjörur á Ströndum eru magnaðir staðir til að njóta frístunda og enginn hörgull á
þeim. Þar er hægt að finna sér ýmislegt til dundurs og dægrastyttingar. Þegar
tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is átti leið um Bjarnarfjörð í gærdag þá varð á vegi hans
risastór tröllkerling eða norn í einni rekafjörunni sem einhverjir ferðamenn
höfðu prjónað saman úr allskyns hráefni úr fjörunni. Talsvert mikið hefur verið
haft fyrir þessu mikla umhverfisverki og er óneitanlega skemmtilegt. Þegar nánar
er að gáð þá er notað í það rekaviður, gúmmíhanskar, plastlok, þari og annað úr
fjörunni sem hægt er að hnýta saman og gera úr allskyns skúlptúra. Til þess að
kerlingin standi upprétt þá hefur fjörugrjóti verið raðað upp í kringum
skrokkinn á henni til að styðja við hana.