08/10/2024

Tilberaklúbburinn

Styrktarklúbbur Galdrasýningar á Ströndum heitir Tilberaklúbburinn og vísar til sögunnar af tilberanum sem dregur björg í bú. Tilberaklúbburinn var stofnaður skömmu eftir opnun sýningarinnar á Hólmavík árið 2000 en meðlimir klúbbsins borga 1.500 kr. í árgjald og geta heimsótt sýningar Strandagaldurs á Hólmavík og í Bjarnarfirði eins oft og þeir vilja án þess að greiða aðgangseyri. Auk þess fá meðlimir Tilberaklúbbsins afslátt í sölubúðum sýninganna og á allar uppákomur á vegum Strandagaldurs. Greiðsluseðlar fyrir árið 2005 eru á leið til meðlima klúbbsins, en 117 manns eru skráðir fullgildir meðlimir í klúbbnum, víðsvegar af landinu. Þeir sem hafa ekki greitt fyrir síðasta ár eru dottnir af tilberaklúbbslistanum, en auðvitað geta þeir hinir sömu skráð sig aftur, ásamt nýjum klúbblimum.

Á heimasíðu Galdrasýningar á Ströndum er listi yfir skráða meðlimi Tilberaklúbbsins (sjá hér), en þar er líka hægt að skrá sig í klúbbinn. Sökum mikilla anna hjá Strandagaldri undanfarna mánuði hefur ekki gefist tími til að senda út greiðsluseðlana fyrr en núna.